Um mig

Ég heiti Ragnheiður Ásta Karlsdóttir og er iðulega kölluð Heiða. Ég starfa sem forritari hjá Fiskistofu. Ég útskrifaðist með B.Sc. próf í tölvunarfræði frá Háskóla Íslands en fyrir var ég með B.Sc. í líffræði frá sama skóla. Ég hef sérstakan áhuga á tölvuöryggi og vefforritun. Ég er gift honum Viktori Alex sem er forritari hjá Sýn ehf. og er líka tölvunarfræðingur.

Mynd af mér

Ég elska matreiðslu og reyni að elda sem oftast. Endilega skoðaðu hluta af uppskriftunum mínum hérna. Þú getur líka kíkt á Kruðerí og kjánabangsar sem er uppskriftasíða sem ég hélt úti með vinkonu minni, henni Sigurbjörgu. Hún er í hvíld í augnablikinu á meðan við sinnum öðru en hver veit nema að rykið verði dustað af henni við tækifæri.

Mynd af mér og Viktori

Ég hlusta oft á hljóðbækur á meðan ég er að elda og ganga frá í eldhúsinu. Líka þegar ég er úti að labba, að taka strætó, taka til eða jafnvel að fara að sofa. Uppáhalds bókaseríurnar mínar eru The Kingkiller Chronicle, Harry Potter og The Dresden Files. Ég held einnig mikið upp á 14, The Martian og Silo bókaseríuna. Ef að þú ert að leita þér að einhverju skemmtilegu til að lesa þá mæli ég með síðunni What should I read next? en þar getur þú slegið inn bókartitil eða höfund af bók sem þér líkar vel og fengið upp tillögur af bókum sem þér gæti þótt skemmtilegar. Einnig er Goodreads alveg ágæt hjálp þegar maður er að leita sér að einhverju til að lesa, sérstaklega ef að maður vill lesa ummæli um bækurnar.

Mér finnst einstaklega skemmtilegt að ferðast og höfum við Viktor reynt að gera eins mikið af því og við getum. Okkur gafst það einstaka tækifæri að ferðast til Madagaskar árið 2016 til að heimsækja foreldra hans sem að bjuggu þá þar. Við fórum líka í heimsókn til þeirra í Suður-Afríku jólin 2019 þegar þau bjuggu þar. Við höfum einnig farið til margra annara landa saman og hlökkum alltaf til að bæta fleirum í safnið. Það er hægt að finna einhverjar myndir frá ferðalögum okkar bæði inn á instagraminu mínu og vonandi fljótlega inni á myndir hér á síðunni.

Önnur áhugamál hjá mér eru meðal annars að horfa á sjónvarpsþætti, drekka viskí, hlusta á hlaðvörp og spila borðspil með fjölskyldu og vinum. Ég nýt þess líka í botn að teikna, mála, búa til fallegar vefsíður og almennt að skapa.

Ef þér leiðist þá mæli ég eindregið með "?" takkanum á forsíðunni. Hann sendir þig beint inn á eitthvað sem að mér finnst skemmtilegt, skrítið, áhugavert eða fræðandi. Góða skemmtun!